Útikennsla

Í nútímasamfélagi hefur útvera barna og tengsl þeirra við náttúruna farið minnkandi. Vera barna úti í náttúrunni getur haft jákvæð áhrif á þroska, heilsu og líðan barna.  Á leikskólum er mikilvægt að stuðla að aukinni útiveru barna og virðingu fyrir náttúrunni. Með því að auka vitund og viðhorf starfsfólks og barna um mikilvægi þess að virða og vernda náttúru og umhverfi eflum við alhliða þroska leikskólabarna. Með því að flytja kennslu að einhverju leiti út fyrir veggi leikskólans getum við auðgað og styrkt starfið og einnig kynnast börnin betur náttúru og umhverfi leikskólans Rannsóknir benda til þess að hreyfiþroski barna aukist meira í náttúrulegu umhverfi en manngerðu og sjálfstraust, einbeiting og félagsfærni eykst.

Útikennsla getur farið fram á leikskólum allan ársins hring. Verkefnin þurfa að miðast við aldur og þroska barnanna og geta komið inn á  öll námsvið leikskóla.  Mikilvægt er að vinna verkefnin í samvinnu við börnin þannig að þau geti prófað og upplifað hlutina á sínum forsendum og gefa hverju viðfangsefni þann tíma sem áhugi barnanna á því varir. Gott er að vinna verkefnin á staðnum í stað þess að taka ávallt efnivið með okkur heim í leikskólann og taka að því loknu ljósmyndir af verkinu. Úrvinnsla verkefna getur verið með ýmsu móti og bæði farið fram úti í náttúrunni eða þegar heim á leikskólann er komið. Veður á í flestum tilfellum ekki að hafa áhrif á það hvort útikennsla geti farið fram eða ekki við þurfum aðeins að klæða okkur betur. Höfum að leiðarljósi að "því betur sem börn tengjast náttúrunni því vænna þykir þeim um hana. Því yngri sem þau eru, því betra"(Sigþrúður S. Jóhannsdóttir, þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum).

Leiðir leikskólans varðandi útikennslu

Á leikskólanum Rofaborg er markmið okkar að auka vægi útikennslu verulega. Við höfum sett okkur markmið með útikennslunni og munum gera áætlun um hvernig útikennslu leikskólans verður háttað. Markmiðið er að virkja bæði börn og starfsfólk til að skapa hugmyndir og verkefni sem spennandi er að vinna í lengri og skemmri ferðum um nánasta umhverfi leikskólans og auka umhverfisvitund. Verkefnin sem lögð verða fyrir þurfa að miðast við aldur og þroska barnanna og koma inn á öll námsvið sem fram koma í Aðalnámskrá leikskóla. Lögð verður mikil áhersla á að skrá upplýsingar um þau verkefni og ferðir sem farið verður í bæði skriflega og myndrænt. Skráning er mikilvæg leið til að afla og geyma upplýsingar.

Meginmarkmið
  • Að efla alhliða þroska barnanna.
  • Að barnið kynnist umhverfi sínu og leikskólans.
  • Að barnið kynnist náttúrunni og læri að bera virðingu fyrir henni.
Undirmarkmið
  • Að vinna með öll námsvið aðalnámskrár leikskóla.
  • Að börnin rannsaki og skoði náttúruna.
  • Að börnin njóti og nýti náttúruna allt árið um kring sem leiksvæði og efnivið til skapandi starfs og leikja.
  • Að stuðla að betri nýtni og endurvinnslu á leikskólanum í stað þess að kaupa nýjan efnivið.
Rammi Ferða og verkefna

Mikilvægt er að fastur rammi sé um útkennslu á leikskólanum en það stuðlar að aukinni öryggiskennd meiri árangri og ánægjulegri upplifun hjá börnum og fullorðum. Verkefni og ferðir sem farið er í þarf að skipuleggja áður en haldið er af stað í þær. Mikilvægt er að setja markmið með hverju verkefni og hverri ferð svo hægt sé að fylgjast með inn á hvaða námsvið leikskóla er komið.

Fyrir sérhverja ferð eða verkefni er byrjað á því að setjast í blómið innandyra. Við tökumst í hendur og heilsumst með nafni, þá tekur kennari við og útskýrir verkefni dagsins fyrir börnunum og að því loknu er valinn veðurfræðingur, forustumaður og fréttamaðurferðarinnar. Veðurfræðingur sér um að kanna hvernig veður er áður en haldið er af stað í ferðina og fer yfir hvernig best er að klæða sig. Forustumaður fer fyrir hópnum og heldur utan um þau gögn sem og þann efnivið sem þarf fyrir verkefnið. Fréttamaðurinn rifjar upp ferðina og spyr börnin spurninga um ferðina ef hann vill. Þegar verkefninu er lokið sest hópurinn niður annaðhvort á staðnum eða þegar heim á leikskólann er komið og fer yfir hvernig gekk, fréttamaðurinn segir frá og hópurinn skráir og myndar það sem við tókum okkur fyrir hendur. Endum á að setjast í hring og þakka fyrir skemmtilega ferð.