Þróunarverkefni Rofaborgar, Árborgar og Árbæjarskóla

Í nokkur ár hefur leikskólinn Rofaborg, leikskólinn Árborg og yngri barna stig Árbæjarskóla verið í samstarfi. Samstarf skólanna má rekja allt til ársins 1987. Í gegnum árin hefur samstarfið verið að þróast og breytast um leið og námskrár skólanna boða öflugra samstarf þessara skólastiga. Skólasamfélagið er í örri breytingu og því þurfa öll skólastig að aðlaga sig breytingum og finna ný viðmið. Breytingar á samstarfinu. Árið 2000 breyttist samstarfið í þann farveg sem það er í dag. Það var álit þeirra sem að samstarfinu komu að leikskólinn gæti gert meira, börnin gætu lært meira í leikskólanum en þau voru að gera. Þar að auki voru þessir aðilar sammála um að heimsókn barna, úr leikskólanum í grunnskólann, í tvö skipti, virtist ekki draga nægjanlega úr kvíða sem oft er hjá börnum við flutning milli skólastiga. Auk þess gáfu heimsóknirnar oft ekki nógu skýra mynd af skólastarfinu. Byrjað var á því að endurskoða heimsóknirnar og leita leiða til að gera þær innihaldsríkari og markvissari. Einnig að skapa vettvang fyrir leikskólabörnin til að taka þátt í öðrum þáttum skólastarfsins eins og t.d uppákomum á sal og á bókasafni. Til viðbótar skoðuðum við með grunnskólanum hvaða verkefnum við gætum bætt við í vinnu elstu barnanna í leikskólanum. Í dag lítur samstarf skólanna svona út;

Samráðsfundir leikskólakennara og kennnara beggja skólastiga

Á tímabilinu sept-maí eru 6 – 7 fundir þessarra aðila. Fundirnir eru notaðir til skrafs og ráðagerða. Á haustfundi í september eru línurnar lagðar fyrir samstarfið út skólaárið. Eftir því sem líður á veturinn er unnið að því að skilgreina markmið og leiðir samstarfsins um leið og þættir þess eru endurmetnir eftir því sem við á.

Heimsóknir 6 ára barna úr Árbæjarskóla í leikskólann sinn

6 ára börnin úr Árbæjarskóla koma í heimsókn í leikskólann sinn að hausti. Bekkjunum er skipt í tvo hópa, í hvorn skólann fyrir sig. Við móttöku barnanna er haft að leiðarljósi að þau taki þátt í leik barnanna. Þess vegna er þeim dreift inn á leiksvæðin í leikskólanum. Um leið verða þau þátttakendur í leiknum. Það er eftirtektavert að sjá gleði og eftirvæntingu í andliti barnanna þegar þau koma í gamla leikskólann sinn.

Stig af stigi verkefni:

Verkefnið Stig af stigi eru æfingar í félagsfærni fyrir 4-9 ára börn. Þessu þáttur samstarfsins byrjaði 2003. Leikskólinn byrjar á verkefninu sem heldur síðan áfram þegar komið er í grunnskólann. Kennarar og skólastjórnendur sækja sameiginleg námskeið að hausti .

Þátttaka 5 ára barna úr leikskólanum á degi ísl.tungu:

Í tengslum við dag íslenskrar tungu taka leikskólabörnin þátt í uppákomu á sal Árbæjarskóla. Leikskólabörnin eru búin að æfa söng eða leikatriði til að sýna áhorfendum.

Sögustund fyrir 5 ára börnin á bókasafni Árbæjarskóla:

Einu sinni til tvisvar á skólaárinu er tekið á móti leikskólabörnunum á bókasafni Árbæjarskóla. Starfsmaður úr skólanum les fyrir hópinn. Í leiðinni kynnast börnin bókasafninu og öðru umhverfi skólans.

Sameiginlegt jólaball 6 ára barna í Árbæjarskóla og leikskólabarna:

Í desember er leikskólabörnunum boðið á jólaball með 6 ára börnunum í Árbæjarskóla. Fyrst er samkoma á sal, þar sem hver bekkur og hver leikskóli flytur leikatriði eða söng. Á eftir er gegnið í kringum jólatréð.

Heimsóknir leikskólanna í leikfimissal Árbæjarskóla

Þegar frí er í grunnskólanum hafa leikskólarnir fengið aðgang að leikfimissal skólans. Starfsfólk leikskólanna sér um að gera salinn tilbúinn áður en börnin mæta. Það þarf að finna til margs konar áhöld og tæki. Heimsókn í leikfimissalinn vekur mikla gleði og kátínu meðal leikskólabarnanna. Um leið átta þau sig á stærð hans og umhverfi skólans.

5 ára börnin taka þátt í útileikjadegi í Árbæjarskóla

Útileikjadagur að vori með 6 ára börnum Árbæjarskóla er einn af nýrri þáttum samstarfsins. Í upphafi leiksins er hlaupið í kringum skólann Börnin fara síðan í hópa sem þau hafa valið sér eftir því hvaða leik þau vilja taka þátt í.

Vikuheimsóknir 5 ára barna úr leikskólunum í Árbæjarskóla í mars/apríl

Það má segja að vorheimsóknirnar í grunnskólann séu umfangsmesti þáttur samstarfsins. Heimsóknirnar standa yfir í viku. Leikskólabörnunum er skipt í 4-6 barna hópa og heimsækir hver hópur alltaf sama 6 ára bekkinn daglega. Einn starfsmaður leikskólans fylgir hverjum hóp sem dvelur í grunnskólanum í tvær kennslustundir í senn. Val kennslustundanna er fjölbreitt og börnin fá að kynnast fleiri en einni námsgrein svo sem tónmennt, leikfimi, tölvukennslu, móðurmálskennslu, stærðfræði og svo fara þau í frímínútur, næðisstund og á föstudegi fá þau hádegismat í skólanum. Öll börn fara með í heimsóknirnar, þó svo þau fari í aðra grunnskólaskóla. Við teljum að sú reynsla nýtist þeim einnig. Almenn ánægja er með þessar heimsóknir hjá öllum sem að verkefninu koma, kennurum, foreldrum og ekki sýst börnunum sjálfum. Að mati skólastjórnenda er sýnilegur munur á þeim börnum sem hafa verið aðnjótandi þessara heimsókna hvað öryggi og vellíðan við skólabyrjun og þeirra sem koma annarsstaðar frá.

Að hausti er lagt fyrir börnin Hljóm próf í leikskólanum

Leikskólakennarar leggja prófið fyrir börnin og skila niðurstöðum þess til foreldra og í samráði við þá, til grunnskólans. Nauðsynlegt er að gera skil til skólans með markvissari hætti og skilgreina betur upplýsingar er varða börnin sem fara til grunnskólans. Þar á meðal er innlögn og úrvinnsla á Hljóm. Það þarf að ígrunda og skilgreina hvaða upplýsingar um barnið fara til grunnskólans og með hvaða hætti þær eru settar fram. Verkefnið nær til elstu deilda leikskólanna og yngstu barna grunnskólans. Afgerandi þættir í því eru vinnufundir skólastjórnenda og kennara, heimsóknir og þátttaka leikskólabarna í starfi grunnskólans og vinna við úrvinnslu Hljóms. Þar fyrir utan er undirbúningur og vinna við að útbúa gagnamöppu fyrir upplýsigar er varðar barnið, sem fara frá leikskóla í grunnskóla. Þátttakendur í verkefninu eru skólastjórnendur Rofaborgar og Árborgar, skólastjórnendur Árbæjarskóla auk kennarar sem starfa á þeim skólastigum sem verkefnið nær til. Til að fá viðhorf foreldra verða þeir þátttakendur í verkefninu. Markmiðið með verkefninu Aðalmarkmið,

Ætlunin er að vinna möppu sem fer með barninu frá leikskóla til grunnskóla

Markmiðið er að gera skil barna milli leik- og grunnskóla markvissari og að sambærilegar upplýsingar um hvert barn berist á milli skólastiga.

Undirmarkmið
 • Brúa bilið milli skólastiganna og stuðla að farsælu námi barnanna í leik- og grunnskóla.
 • Stuðla að vellíðan og öryggi barnanna við flutning úr leikskóla í grunnskóla.
 • Skapa samfellu í námi barnanna.
 • Hlúa enn betur að þeim þáttum samstarfsins, eins og þeir eru skilgreindir hér að ofan (sjá lið 2) Leita leiða til að gera þá innihaldsríkari og árangursríkar. Má í því samhengi nefna að geta gefið meira svigrúm til undirbúnings þessara þátta. Að okkar mati hefur verkefnið ótvírætt gildi fyrir bæði leik- og grunnskólastigið. Bæði í skólanámskrá leik- og grunskóla er skólastigunum ætlað að hafa samstarf. Oft hefur komið til umfjöllunar flutningur barna úr leik- í grunnskóla. Margir álíta að skrefið yfir í grunnskólann sé í sumum tilfellum erfitt og valdi börnum og foreldrum þeirra kvíða. Umhverfi grunnskólans er oft frábrugðið leikskólanum og þess vegna getur tekið talsverðan tíma fyrir barnið að fóta sig í þessu nýja umhverfi. Eftir því sem barnið þekkir betur umhverfið áður en skólagangan hefst, stuðlum við að betri líðan barnsins við skólabyrjun. Við teljum að eftir því sem grunnskólinn veit meira um nemandann verði betur unnt að koma til móts við þarfir hans. Það stuðlar að farsælu námi barnsins. Kæru foreldrar elstu barna á Rofaborg. Nú er komið að því að koma með möppur fyrir hvert barn í elsta aldurshópi eins og rætt var um á foreldrafundi þann 24. okt. síðastliðinn. Við viljum biðja ykkur foreldra að koma með möppur í stærð A4 og að fyrstu upplýsingarnar komi frá ykkur t.d.
  • Fæðingardag barnsins.
  • Hvar barnið er fætt.
  • Nafn foreldra.
  • Nafn systkina.
  • Nafn afa og ömmu.

Einnig væri gaman ef það væri mynd af barninu á fyrst ári, því börnunum finnst gaman að sýna hvort öðru hvernig þau voru lítil. Við gerum ráð fyrir því að börnin sýni hvort öðru möppurnar og segi frá og í framhaldi þegar eitthvað bætist í möppuna þá geti þau sýnt hvort öðru og sagt frá í samverustundum. Það eflir sjálfsmynd þeirra og gerir þau öruggari í að koma fram og tjá sig. Við vonumst eftir góðum undirtektum.