Hreyfinám á Rofaborg 2008 - 2009

Hreyfing og hreyfireynsla barna

Mikilvægt er að hreyfinám skipi veglegan sess í uppeldi barna þar sem hreyfifærni hefur mikil áhrif á persónuleika einstaklingsins. Rannsóknir hafa sýnt að fjölbreytt hreyfinám strax á unga aldri hefur mikil og jákvæð áhrif á sálarþroska barna og auðveldar þeim að laða sig að félagslegu umhverfi sínu. Þær hafa einnig bent á að hreyfingarleysi auki hættu á hjarta og æðasjúkdómum í framtíðinni. Efling hreyfifærni hefur einnig áhrif á aðrar þroskabrautir og þróun þeirra. Í gegnum fjölbreytta hreyfingu  lærir barnið að þekkja sjálft sig og
skynja þá miklu möguleika sem hreyfingin býður upp á.

Það er nýlegt fyrirbæri að börn  alist upp við  hreyfingarleysi og hætta á hjartasjúkdómum eykst ef þau fá ekki nægilega þjálfun þegar þau eru ung. Bein, bönd og vöðvar styrkjast vegna aukinnar hreyfingar og hjarta og lungu þroskast. Fjölbreytt hreyfing á barnsaldri getur haft mikil áhrif og minnkað eða jafnvel varnað því að slík vandamál komi fram. Sjálfstraust barna styrkist með auknu hreyfinámi og það verður óhrætt við að takast á við ný verkefni og leysa þau af hendi. Rannsóknir hafa sýnt að aukin hreyfifærni eflir nám á öðrum sviðum.
Niðurstöður sálfræðingsins J. Piaget sýna að skynjun og hreyfireynsla barnsáranna sé undirstöðuatriði varðandi þroska barnsins og á þann hátt læri það að hugsa. Grundvöllur fyrir því að áðurnefnd atriði gangi eftir er að barnið fái tækifæri til að reyna sig, æfa sig, uppgötva, rannsaka og komast að niðurstöðu. Þannig safni barnið upp sjálfstæðri reynslu úr umhverfi sínu. Með fjölbreyttu hreyfinámi eykst möguleikinn á því að öðlast aukna reynslu.

Samband barna gengur að miklu leiti út á hreyfiathafnir. Hjá börnum eru flest mál leikin en ekki rædd. Að geta tekið þátt í leik og hreyfilífi jafnaldra sinna er að miklu leiti undir hreyfifærni komið. Í sameiginlegum  hreyfileikjum kynnast börnin mismunandi félagslegum þörfum og þau læra einnig að fara eftir settum reglum. Léleg hreyfifærni getur orsakað minna sjálfstraust og óánægju sem getur svo aftur haft neikvæð áhrif á þroska einstaklingsins. Með markvissu hreyfinámi getur skapast ákjósanlegur  möguleiki fyrir barnið til að þroska
hreyfingar sínar og hreyfifærni jafnt og þétt. Því skiptir miklu máli að skapa öllum börnum möguleika á að takast á við verkefni sem henta getu þeirra og þroska.

Skipulögð Hreyfiþjálfun á leikskólanum Rofaborg

Stefnt er að því að öll börn á leikskólanum Rofaborg fái skipulagða hreyfistund  á sal einu sinni í viku í 30. mínútur í  senn.  Að auki er börnum á Spóalandi og Krummalandi boðið upp á kraftgöngu eða útileikfimi í vali þrisvar sinnum í viku.

Í hreyfistundum er farið í kynningu á helstu þáttum íþróttagreina svo sem fimleika, frjálsar íþróttir, knattleiki, hreyfitjáning, leikfimisæfingar, grunnþjálfun og leiki. Unnið er markvisst eftir ársáætlun og tímaseðlum. Annars vegar er unnið eftir tímaseðlum sem útbúnir hafa verið fyrir tveggja til fjögra ára aldurshópinn og hins vegar eftir seðlum fyrir fjögra til sex ára börnin. Þróun tímaseðla er stöðug og eru þeir endurnýjaðir eða þeim breytt eftir þörfum barnahópsins hverju sinni. Lögð er áhersla á að sami starfsmaður sinni skipulagðri hreyfiþjálfun á leikskólanum, þannig að tryggt sé að allir fái sömu kennslu. Mikil áhersla er lögð á leikánægju og gleði í hreyfistundunum.

Mikilvægt er að börn séu í fatnaði sem hentar til íþróttaiðkana þannig að þau geti hreyft sig frjálslega og óheft. Mikil áhersla er lögð á að börn séu berfætt í salnum til að koma í veg fyrir slysahættu þar sem oft skapast mikið líf og fjör í hreyfistundunum. Öll börn leikskólans hafa aðgang að frjálsum tímum í salnum. Þar fá börnin sjálf að skapa sér leiki og kynnast þeim áhöldum sem salurinn hefur uppá að bjóða.

Í kraftgöngu eða útileikfimi sem  börnum af Spóalandi  og Krummalandi er boðið upp á í vali er unnið eftir tímaseðlum sem taka tillit til nánasta umhverfis leikskólans og þeim tækifærum og möguleikum sem það hefur uppá að bjóða. Farið er í gönguferðir, útileiki, stöðvaþjálfun, klifur og margt fleira. Börn á yngri deildum fara í gönguferðir með sínum deildum um nágrenni leikskólans. Að auki er útvera stór þáttur í dagskipulaginu á leikskólanum.

Uppbygging Tímaseðla

Á Rofaborg er lögð áhersla á að  allar skipulagðar hreyfistundir hafi sama upphaf og sama endir. Við upphaf hreyfistundar setjast allir í blómið og heilsast. Þá taka við liðleikaæfingar og styrkleikaæfingar ( Barnajóga ). Í upphitun og aðalþætti er farið í kynningu á helstu íþróttagreinum. Að loknum aðalþætti er farið í slökun og svo er aftur farið í blómið þakkað fyrir hreyfistund og í röð. Það að rammi tímaseðlanna sé alltaf eins skapar þekkingu og öryggi hjá börnunum. Með tímanum læra þau til hvers er ætlast af þeim og verða þar af leiðandi
öruggari í starfinu sem fram fer inni í salnum.

Meginmarkmið með hreyfinámi á leikskólanum Rofaborg
 • Að gefa börnum kost á fjölbreyttri og markvissri hreyfing sem fullnægir líkamlegri, andlegri og félagslegri þörf þeirra fyrir útrás í leik og starfi.
 • Að örva jákvætt viðhorf barna til íþróttaiðkana hvar og hvenær sem er og gera þar með  hreyfiiðkun og líkamsþjálfun að sjálfsögðum hlut í augum þeirra.
  Undirmarkmið
  • Að auka líkamlega afkastagetu og sjálfstraust barnanna
  • Að auka líkamsvitund og reynslu barnanna með mismunandi áhöld.
  • Að örva leikgleði og ná fram æfingum á leikrænan hátt.
  • Að ná fram aga og að börn læri að fara eftir fyrirmælum og reglum.
  • Að auka þor barnanna
  • Að auka hópkennd barnanna, þau læri að taka tillit til hvers annars og
   vinni saman að settu marki.
  • Að börnin læri að gera mun á réttu og röngu.
Áhersluþættir
Þrekþættir
 • Kraftur
 • Snerpa
 • Liðleiki
 • Þol
Samhæfing
 • Skynþjálfun (líkams‐ og rúmskynjun)
 • Viðbragð
 • Jafnvægi
 • Rythmik
 • Leikir íþróttagreinar (kynning)
 • Rúmskynjun
Andlegir þættir
 • Áhugahvöt
 • Ánægja og gleði
 • Örvun vitsmunaþroska
 • Forvitni
 • Sköpunargleði
Félagslegir þættir
 • Samvinna
 • Tillitsemi
 • Virðing
 • Vinátta
Kynning á helstu íþróttagreinum
 • Fimleikar
 • Frjálsar íþróttir
 • Knattleikur
 • Hreyfitjáning
 • Leikfimisæfingar
 • Grunnþjálfun
 • Leikir
Fimleikar

Efla kraft, fimi og liðleika.  Stuðla að bættri hreyfifærni, líkamsreisn og áræðni. Auka samhæfingu.
Leiðir: Stöðvarþjálfun og brautir, liðleikaæfingar og önnur verkefni inni og úti.

Frjálsar íþróttir

Reyna alhliða á líkamann og auka afkastagetu hans og styrk.
Leiðir: Leikrænar grunnæfingar sem og hlaupagreinar, stökk og fleira.

Knattleikir

Reyna alhliða á líkamann. Auka samvinnu barnanna.
Leiðir: Grunnboltaæfingar, börnin kynnast boltanum og gera ýmsar boltaæfingar með leikrænum hætti og einföldu sniði.

Hreyfitjáning

Þjálfa hugarflug barna og sköpunarhæfileika. Þjálfa einnig túlkun og tjáningu með líkamanum á ýmsan hátt.

Leikfimisæfingar

Þroska markvisst einstaka hreyfieiginleika svo sem kraft og liðleika. Stuðla að góðri líkamsbeitingu.

Grunnþjálfun

Efla almennt þrek og stuðla markvisst að bættri líðan og líkamsfari.