Leikskólinn Rofaborg

Einkunnarorð okkar eru: Leikur - gleði - vinátta

Leikskólinn Rofaborg er staðsettur í Árbæjarhverfi við rætur Elliðaárdalsins sem er ein af fegurstu náttúruperlum borgarinnar. Í Rofaborg dvelja 110 börn á 5 aldurskiptum deildum.

Leikskólastjóri er Þórunn Gyða Björnsdóttir
Aðstoðarleikskólastjóri er Guðlaug Kristinsdóttir

Rofaborg tók til starfa 1985. Deildir leikskólans eru nú fimm og bera nafn fugla, Svanaland, Þrastaland, Spóaland, Krummaland og Lóuland.Uppeldi og menntun barna á Rofaborg byggir á þekkingu og reynslu starfsmanna skólans á því hvernig börn þroskast best. Reynsluheimur barna og virkni þeirra, ásamt góðri sjálfsmynd og jákvæðum aga eru þar mikilvægir þættir og undirstaða alls náms barna á þessum aldri.Starf leikskólans fellur vel að stefnu Bandaríkjamannsins John«s Dewey. Dewey lagði áherslu á að börnin ættu að vera virk í leikjum sínum og umhverfi þeirra frjótt og skapandi ásamt hrósi og hvatningu frá fullorðna fólkinu.

Leikurinn er aðalnámsleið leikskólans og besta leiðin fyrir barnið til þess að stöðugar framfarir verði í þroska þess. Leikurinn er vinna og nám barnsins og því er lögð áhersla á leikinn í námi og uppeldi barna á Rofaborg. Sjálfsmynd barnsins mótast að miklum hluta í samskiptum við þá fullorðnu aðila sem barnið umgengst. Þess vegna er hlýtt viðmót og falleg samskipti við börn og fullorðna mikilvægir þættir.

Lögð er áhersla á sjálfshjálp barnsins. Um leið og barnið uppgötvar getu sína öðlast það sjálfsstyrk og gleði sem er mikilvægur efniviður til að öðlast góða sjálfsmynd. Fyrstu æviárin er lagður grunnur að málþroska barnsins. Í samskiptum við fullorðna og í leik með öðrum börnum örvast tjáning smátt og smátt, samhliða því sem orðaforðinn eykst. Á Rofaborg er notað tákn með tali (TMT) sem hjálpartæki til að örva málvitund og málskilning barnsins. Það nýtist sérstaklega börnum sem eru sein til máls, því þau muna betur það sem þau sjá en heyra.

Markvisst samstarf er á starfi 5 ára barna í Rofaborg og grunnskólans. Markmiðið með samstarfinu er að brúa bilið á milli skólastiganna og stuðla að farsælu námi barnanna. Á þessum aldri er lögð áhersla á vináttu, að barnið læri að umgangast önnur börn með virðingu og sem jafningja. Ennfremur þarf barnið að læra að vera ábyrgur meðlimur í hóp og jafnframt að njóta sín sem einstaklingur án tillits til kynferðis og kynþáttar.

Makmið Rofaborgar
  • Að efla alla þroskaþætti barnsins gegnum leikinn, sem er jafnframt aðal náms- og kennslutæki leikskólans.
  • Að barnið njóti gleði öryggis og vellíðan í leikskólanum.
  • Að starfsfólk hafi gefandi og falleg samskipti við börnin.
  • Að hafa góða samvinnu við foreldra.